Stjórn og stjórnarhættir


Bankaráð Landsbankans er kjörið á aðalfundi til árs í senn og eru kjörnir sjö aðalmenn og tveir varamenn. Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi bankans í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir. Bankaráð mótar almenna stefnu bankans og skal sjá til þess að skipulag og starfsemi bankans sé jafnan í réttu horfi. Bankaráð skal einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri bankans og tryggja það að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.

Fara neðar

Bankaráð Landsbankans

Tryggvi Pálsson, formaður

Tryggvi Pálsson hefur víðtæka reynslu á fjármálamarkaði og hefur gegnt leiðandi hlutverki í rekstri fjölmargra fjármálafyrirtækja. Hann lauk prófi frá Viðskiptadeild Háskóla Íslands og meistaragráðu í þjóðhagfræði frá London School of Economics. Tryggvi er sjálfstætt starfandi við ráðgjöf, kennslu og stjórnarstörf.

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir

Eva Sóley Guðbjörnsdóttir er forstöðumaður á fjármálasviði hjá Össuri hf. Hún situr jafnframt í stjórn Skeljungs hf. og er stundakennari í meistaranámi í fjármálaverkfræði við Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík. Hún er með meistaragráðu í fjármálaverkfræði frá Columbia University í Bandaríkjunum ásamt grunngráðu í hagverkfræði frá sama skóla. Þá hefur hún lokið löggildingarprófi í verðbréfamiðlun.

Helga Björk Eiríksdóttir

Helga Björk Eiríksdóttir er framkvæmdastjóri Integrum sem starfar á sviði fasteignaþróunar og ráðgjafar. Helga Björk er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Edinborg. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í ensku og ítölsku frá Háskóla Íslands 1997 og lauk prófi í hagnýtri fjölmiðlun 1999 frá sama skóla. Helga Björk lauk prófi í markaðs- og útflutningsfræði frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands 2002.

Danielle Pamela Neben

Danielle Pamela Neben starfaði hjá HSBC, sem er einn stærsti banki heims, á árunum 1993-2013 í sjö löndum, m.a. í Bretlandi, Þýskalandi, Taívan og Singapore. Hún lauk háskólanámi í viðskiptafræði frá McGill University í Kanada með áherslu á fjármál. Danielle Pamela Neben hefur búsetu á Íslandi.

Jóhann Hjartarson

Jóhann Hjartarson hefur verið yfirlögfræðingur Íslenskrar erfðagreiningar ehf. frá árinu 1998 en hann var einnig yfirlögfræðingur deCODE genetics Inc. á árunum 1998-2009. Jóhann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1992 og öðlaðist réttindi sem héraðsdómslögmaður (hdl.) 1998.

Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson starfar sem framkvæmdastjóri innkaupasviðs hjá Promens en hann var framkvæmdastjóri fjármálasviðs félagsins frá stofnun þess til ársins 2007. Hann er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands.

Kristján Davíðsson

Kristján Þ. Davíðsson hefur starfað sem framkvæmdastjóri Isder ehf. síðan 2009. Hann er með skipstjórnarpróf frá Stýrimannaskóla Íslands og meistaragráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum í Tromsö í Noregi.

Varamenn

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir hefur stundað kennslu og rannsóknir hérlendis og erlendis og gegnir nú lektorsstöðu við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í hagfræði frá University of Miami í Bandaríkjunum árið 2006 en þar áður stundaði hún meistaranám í hagfræði við sama skóla og sagnfræði við Háskóla Íslands.

Ragnar Lárus Gunnarsson

Ragnar Lárus Gunnarsson var annar af tveimur varamönnum í bankaráði. Hann ákvað í júlí 2014 að segja starfi sínu lausu vegna starfa erlendis. Kjör nýs varamanns fer fram á hluthafafundi árið 2015.

Stjórnarhættir

Góðir stjórnarhættir Landsbankans leggja grunninn að traustum samskiptum hluthafa, bankaráðsmanna, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun bankans. Á hverju ári gerir Landsbankinn úttekt á því hvort viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti sé fylgt og hvort stjórnarhættir bankans á hverjum tíma séu í samræmi við þær leiðbeiningar.

Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti tilkynnti í desember 2014 að Landsbankinn hf. fengi viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Umsögn Rannsóknarmiðstöðvarinnar var byggð á úttekt á stjórnarháttum sem unnin var af Deloitte í nóvember 2014. 

Niðurstaða úttektar Deloitte á stjórnarháttum Landsbankans var talin gefa skýra mynd af stjórnarháttum bankans og benda til þess að Landsbankinn geti að mörgu leyti verið öðrum fyrirtækjum til fyrirmyndar í góðum stjórnarháttum.

Stjórnarháttayfirlýsing Landsbankans

Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og gerir grein fyrir þessum þætti í stjórnarháttayfirlýsingu bankans ár hvert.

Lesa stjórnarháttayfirlýsinguna í heild