Ávarp formanns bankaráðs


Landsbankinn stendur á margan hátt á tímamótum. Það gildir í senn um ytri aðstæður sem og starfið innan bankans. Með markvissu starfi á undanförnum árum hefur tekist að koma Landsbankanum í stöðu sem skapar forsendur til að tryggja viðunandi afkomu bankans til langs tíma litið.
Fara neðar

Í fyrsta lagi eru eftirhret bankahrunsins að mestu leyti gengin yfir og framundan eru aðgerðir til afléttingar hafta á fjármagnshreyfingar. Lagaleg óvissa um gengisbundin og verðtryggð kjör og sífelldur endurreikningur lána heyrir senn sögunni til.

Í öðru lagi hefur verið lengt í skuldabréfum Landsbankans við LBI. Sá mikilvægi áfangi veitir svigrúm í erlendri fjármögnun bankans. Ekkert er bankanum nú að vanbúnaði til að hefja lántökur á alþjóðlegum markaði þegar það þykir hagkvæmt.

Í þriðja lagi hefur góður árangur náðst í sölu fullnustueigna og hlutabréfa. Á árinu munaði mest um að seldir voru með hagnaði eignarhlutir bankans í Valitor, Borgun og Promens auk stórs hluta í FSÍ.

Drjúgur hluti af hagnaði og arðsemi á undanförnum árum skýrist af virðisbreytingum útlána, hagnaði af eignum á markaði og sölu eigna.

Í fjórða lagi er eiginfjárstaða bankans orðin firnasterk, en hefur þó væntanlega náð hámarki. Kemur þar tvennt til.

Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs

Annars vegar er unnt að greiða út hluta þess eiginfjár sem er umfram viðmið stjórnar og kvaðir eftirlitsaðila. Ríkissjóður getur þá grynnkað á skuldum sínum. Það styrkir lánshæfi hans og þar með allra íslenskra lántakenda. Hins vegar eru horfur á að arðsemi bankans minnki á komandi árum.

Eiginfjárhlutfall (CAR)

Í fimmta lagi nálgast sú stund að ríkissjóður selji af hlut sínum í bankanum og hlutabréf bankans verði skráð í kauphöll. Í fjárlögum er kveðið á um sölu 15% eignarhlutar ríkissjóðs á árinu 2015 og annars eins árið eftir.

Í sjötta lagi markar það tímamót að ný stefna verður kynnt á aðalfundi bankans. Meginmarkmið hennar er að arðsemi af reglubundinni starfsemi verði í framtíðinni að jafnaði yfir 10%. Bankinn ætlar að setja þarfir viðskiptavina í forgrunn og nýta þau tækifæri sem felast meðal annars í betri samsetningu efnahags, auknum viðskiptum, skilvirkni og kostnaðaraðhaldi.

Með markvissu starfi á undanförnum árum hefur tekist að koma Landsbankanum í stöðu sem skapar forsendur til að tryggja viðunandi afkomu bankans til langs tíma litið. Ekkert er þó sjálfgefið á þeirri leið.

Árangur Landsbankans verður ekki einungis mældur út frá rekstrar- og efnahagsreikningi hans heldur ekki síður með tilliti til þess sem starfið hefur skilað fyrir viðskiptavini og samfélag okkar. Látum efndir frekar en loforð efla traust.