Ávarp Steinþórs Pálssonar bankastjóra


Staða Landsbankans styrktist á árinu 2014. Efnahagur bankans hefur aldrei verið traustari, bankinn býr að mjög sterkri eigin- og lausafjárstöðu auk þess sem búið er að lengja verulega í erlendum lánum. Þá hafa gæði eigna batnað töluvert á árinu, vanskil hafa lækkað verulega og mikið hefur verið selt af hlutabréfum og fullnustueignum. 

Fara neðar

Sterk staða Landsbankans var staðfest þegar erlent matsfyrirtæki breytti horfum bankans úr stöðugum í jákvæðar síðastliðið haust. Það sem heldur aftur af frekari hækkun á lánshæfismati er fyrst og fremst lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Bundnar eru vonir við að hún hækki á næstunni og um leið hækki mat á bankanum.

Á árinu 2014 var hagnaður af rekstri Landsbankans um 29,7 milljarðar króna og arðsemi eiginfjár 12,5%. Arðsemin hefur verið góð á undanförnum árum og að meðaltali rúm 12% á ári síðustu fimm árin. Markmið bankans er að arðsemin verði á bilinu 10 til 15% að jafnaði. Eigið fé heldur áfram að hækka vegna mikils hagnaðar og þrátt fyrir að greiddur hafi verið út til eigenda 20 milljarða króna arður fyrir ári.

Mikið af hagnaði síðustu ára stafar af einskiptisliðum. Hluti hans er virðisaukning af útlánum fyrirtækja, eða tæpir 25 milljarðar króna, en á móti koma virðisrýrnun og afskriftir af útlánum bankans til einstaklinga. Sú fjárhæð nemur rúmum 12 milljörðum króna.

Steinþór Pálsson, bankastjóri

Þegar þessar virðisbreytingar eru settar í samhengi við stöðu heildarútlána kemur í ljós að lánasafn einstaklinga, sem tekið var yfir við stofnun Landsbankans, var ofmetið um 7% en lánasafn fyrirtækja vanmetið um 5%. Meðal annarra einskiptisliða sem hafa haft töluverð áhrif á rekstrarafkomu á liðnum árum er gengishagnaður af erlendum gjaldmiðlum og af hlutabréfum.

Hagnaður (m. kr.)

Ekki er hægt að reikna áfram með sambærilegum tekjum af einskiptisliðum og á undanförnum árum. Til að skila viðunandi arðsemi þarf því að bæta rekstur, draga úr kostnaði, auka skilvirkni og auka hlutfall reglulegra tekna af heildartekjum bankans. Að þessu munum við stefna en því fylgja breytingar í rekstri auk fjárfestinga í innviðum og þjálfun starfsmanna og mun taka nokkur ár áður en settu marki verður náð. Því er líklegt að arðsemi næstu ára verði undir langtímamarkmiðum bankans.

Landsbankinn er nú sem áður stærsta fjármálafyrirtæki landsins. Það er jákvætt að sjá að markaðshlutdeild fer vaxandi meðal almennings í landinu og að forysta bankans á því sviði eykst. Starfsfólki bankans er þakkað gott starf og viðskiptavinum ánægjuleg samskipti.

Við leggjum á það megináherslu í framtíðinni að allir starfsmenn vinni saman og af ábyrgð þannig að bankinn sé áfram traustur samherji í fjármálum. Þjónustan á að snúast um þarfir viðskiptavina og vera með þeim hætti að þeir nái árangri og að samstarf við bankann skili þeim ávinningi. 

Við viljum að viðskiptavinir okkar geti sagt: „Svona á banki að vera!“