Samstarfsverkefni


Landsbankinn tekur virkan þátt í mörgum samstarfsverkefnum með samfélagslega skírskotun. Verkefnin eru fjölbreytt og snerta margar hliðar samfélagsins, s.s. menningu, fræðslu, nýsköpun og ferðaþjónustu.

Fara neðar

Iceland Airwaves

Landsbankinn og tónlistarhátíðin Iceland Airwaves gerðu á árinu með sér samstarfssamning sem felur í sér að bankinn verður einn af helstu bakhjörlum hátíðarinnar næstu tvö árin. Landsbankinn vill með þessu styðja við bakið á ungu tónlistarfólki, í senn sem lið í samfélagslegri ábyrgð bankans og virkum stuðningi við listir og menningu í landinu.

Til að hita upp fyrir hátíðina sem var haldin dagana 5.-9. nóvember fékk bankinn til liðs við sig hljómsveitirnar Vök, Young Karin og tónlistarmanninn Júníus Meyvant sem öll komu fram á hátíðinni. 

Opnuð var glæsileg vefsíða þar sem finna má ný lög, eldri lög í nýjum búningi og viðtöl við þetta unga og efnilega tónlistarfólk. Þar var hægt að fá forsmekk af stærstu tónlistarhátíð ársins og sjá dæmi um þá miklu grósku sem er íslensku tónlistarlífi.

Auk þess komu hljómsveitirnar fram á „off-venue“ tónleikum í útibúi bankans við Austurstræti, laugardaginn 8. nóvember og spiluðu fyrir troðfullu húsi gesta.

Iceland Airwaves vefur Landsbankans

Fjármálaþjónusta í fremstu röð

Landsbankinn, Landsbréf og Samtök iðnaðarins stóðu fyrir fundi í Selvík 10. og 11. apríl þar sem fjallað var um hvernig hægt væri að bæta fjármálaumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja í tækni- og hugverkagreinum, þar með töldum skapandi greinum. Ein aðalforsenda fundarins var sú að nauðsynlegt sé að skapa „fjármálaumhverfi í fremstu röð“ á Íslandi fyrir fyrrnefnd fyrirtæki í samræmi við ímynd Íslands sem „græns“ eða „hreins“ hagkerfis. Um 50 manns, fulltrúar nýrra og spennandi fyrirtækja úr fjölmörgum iðngreinum, tóku þátt í fundinum og unnu saman að því að skilgreina þær fjármögnunarleiðir eða verkfæri sem þurfa að vera til staðar svo gjaldeyrisskapandi/-sparandi fyrirtæki sjái sér ótvíræðan hag í að vera áfram á Íslandi. Niðurstöður fundarins verða nýttar í áframhaldandi samstarfi á þessu sviði.

Samstarf við Samtök ferðaþjónustunnar

Landsbankinn stóð fyrir sameiginlegum stefnumótunarfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), stjórnvalda og Landsbankans 10. og 11. nóvember í Selvík. Þátttakendur voru um 50 lykilstjórnendur úr ferðaþjónustu og öðrum greinum atvinnulífisins sem henni tengjast. Fundurinn var liður í vinnu við mótun framtíðarsýnar fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi og áhersla var lögð á hvernig hægt væri að styrkja samstarf opinberra aðila og fyrirtækja í greininni. Auk ráðherra ferðamála og talsmanna ferðaþjónustunnar fjölluðu lykilmenn nokkurra opinberra stofnana um þau viðfangsefni í þeirra rekstri sem tengjast ferðaþjónustu. Fundurinn markaði upphaf stefnumótunar stjórnvalda og SAF sem nú stendur yfir.

Stefnumarkandi verkefni í ferðaþjónustu

Icelandair Group, Bláa Lónið, Landsbankinn og Meet in Reykjavík hafa tekið höndum saman um stefnumarkandi verkefni til þriggja ára sem miðar að markaðssetningu á Reykjavík og Íslandi fyrir ferðamenn sem krefjast hágæða þjónustu. Verkefnið ber heitið Iceland Luxury og er hýst og stjórnað af Meet in Reykjavík. Markmið þessa samkomulags er að stuðla að langtímastefnumörkun á þessu sviði, styrkja ímynd Reykjavíkur og Íslands í augum vel stæðra ferðamanna, auka samtakamátt fyrirtækja sem starfa á þessum markaði og hvetja til þróunar innviða og þjónustu fyrir þennan markhóp. Samstarfið er framhald af þeirri uppbyggingu sem hófst með stofnun Meet in Reykjavík árið 2012 og styður Landsbankinn einnig við þá starfsemi.

Ísland – allt árið

Landsbankinn hefur frá upphafi stutt markaðsverkefnið Ísland – allt árið en skrifað var undir nýjan samning um verkefnið 18. desember 2014 og gildir hann til loka árs 2016. Tilgangur verkefnisins er að festa ferðaþjónustu enn betur í sessi sem heilsársatvinnugrein og auka arðsemi hennar með það fyrir augum að skapa gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Markaðssetning fer fram undir formerkjum Inspired by Iceland og sér Íslandsstofa um framkvæmdina.

Nánar um Inspired by Iceland

Ráðstefnur og fundir

Landsbankinn beitir sér fyrir því að kalla saman á fundi og ráðstefnur gesti sem hafa mótandi áhrif á hugmyndir í samtímanum. Á árinu 2014 stóð bankinn m.a. fyrir fjórum stórum ráðstefnum af þessum toga: um fjárfestingu í sjávarútvegi, um vöxt í ferðaþjónustu, um framtíð íbúðalánakerfisins á Íslandi og um framtíð verslunar og þjónustu, auk hinnar árlegu ráðstefnu bankans þar sem þjóðhagsspá Hagfræðideildar til næstu ára er kynnt. Á þeirri ráðstefnu var einnig fjallað um stöðu heilbrigðiskerfisins og um hugsanlegan ávinning af lagningu sæstrengs fyrir raforkusölu til Evrópu. Meira en 1.000 manns hafa sótt þessar ráðstefnur bankans sem hafa skapað sér sess sem mikilvægur vettvangur margra af helstu viðfangsefnum samtímans.

Þá er ógetið ráðstefnu sem Landsbankinn stóð fyrir ásamt Hagfræðideild Háskóla Íslands, til heiðurs Jónasi Haralz, fyrrverandi bankastjóra Landsbanka Íslands, í tilefni þess að hann hefði orðið 95 ára á árinu 2014. Ráðstefnan bar yfirskriftina „Leiðin úr höftunum“ og fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 8. október. Fullt var út úr dyrum í orðsins fyllstu merkingu.

Skólahreysti

Landsbankinn er aðalbakhjarl Skólahreysti og leggur keppninni lið af krafti. Markmið Skólahreysti er að hvetja börn til að taka þátt í alhliða íþróttaupplifun sem byggð er á grunnforsendum almennrar íþróttakennslu og þar sem keppendur vinna að mestu leyti með eigin líkama í þrautum. Vinsældir Skólahreysti hafa aukist ár frá ári og keppa nú yfir 600 krakkar fyrir hönd skóla sinna og nokkur þúsund krakkar eru virkir félagar í stuðningsliðum. Auk Landsbankans nýtur Skólahreysti stuðnings mennta- og menningarmálaráðuneytisins, norrænu ráðherranefndarinnar, Toyota og Íþrótta- og ólympíusambandsins.

Í tengslum við Skólahreysti heldur Landsbankinn úti spurningaleik sem er ætlað að efla fjármálalæsi ungmenna. Þátttakendur leysa 12 verkefni af fjölbreyttu tagi sem taka mið af markmiðum OECD í fjármálafræðslu. Öllum er heimil þátttaka í leiknum en sérstök keppni er haldin meðal nemenda í 8., 9. og 10 bekk.

 

Nánar um Skólahreysti

Menningarnótt

Landsbankinn hefur verið virkur þátttakandi í Menningarnótt frá upphafi og hefur hvort tveggja opnað dyr sínar fyrir gestum og gangandi og verið bakhjarl hátíðarinnar alla tíð. Það hefur verið bankanum kappsmál að fjárstuðningur hans renni beint til listamanna og –hópa sem skipuleggja viðburði á Menningarnótt.

Til að ná því markmiði var stofnaður sérstakur Menningarnæturpottur á vegum Höfuðborgarstofu og Landsbankans. Markmið hans er að veita frumlegum og sérstökum hugmyndum brautargengi. Veittir eru margir hóflegir styrkir en potturinn hefur verið góð viðbót við farsælt samstarf Höfuðborgarstofu og Landsbankans.

Lánatryggingasjóðurinn Svanni

Í samstarfi við Svanna – lánatryggingasjóð kvenna veitir Landsbankinn konum í atvinnurekstri lán sem sjóðurinn og bankinn ábyrgjast sameiginlega. Landsbankinn veitir helming ábyrgðar á móti sjóðnum og tryggir þannig konum í nýrri starfsemi rýmri aðgang að fjármagni en ella og eykur möguleika til að stofna fyrirtæki. Samstarfssamningurinn er liður Landsbankans í að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar í landinu.

Háskólasjóður Eimskipafélagsins

Háskólasjóður h/f Eimskipasjóðurinn er í vörslu Landsbankans og hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2005. Það ár voru gerðar veigamiklar breytingar á fyrirkomulagi sjóðsins með það að markmiði að veita styrki til stúdenta í rannsóknartengdu framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum eftir þær breytingar fór fram 2006 og hafa yfir 80 doktorsnemar í fjölmörgum fræðigreinum stundað rannsóknir og nám við Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins.

Öndvegissetur um verndun hafsins

Landsbankinn var meðal þeirra sem skrifuðu undir samning um stofnun Oceana á Arctic Circle ráðstefnunni er haldinn var í Hörpu 31. október 2014. Nafni stofnunarinnar var síðar breytt í Hafið. Um er að ræða öndvegissetur sem ætlað er að vinna að útfærslu hugmynda um verndun hafsins með því að draga úr mengun með grænni tækni. Verkefnið er í senn umfangsmikið og metnaðarfullt og er stutt af fjölmörgum aðilum: umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Reykjavíkurborg, Landsbankanum, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Hafrannsóknastofnun, Orkustofnun, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Granda hf., Clean Tech Iceland, sem eru samtök fyrirtækja í grænni tækni, og fjölda tæknifyrirtækja.

Hafið verður vettvangur samstarfs fyrirtækja, opinberra aðila og rannsóknarstofnana sem vilja vinna að hafverndarmálum á alþjóðavettvangi. Hafið hyggst nýta þá þekkingu sem er til staðar í háskólum, stofnunum og fyrirtækjum til að auka skilning á þeim breytingum sem gera má ráð fyrir í umhverfi hafsins á komandi árum vegna aukinnar skipaumferðar í íslenskri landhelgi og vegna loftlagsbreytinga. Setrinu er ætlað að leiða til samstarfs er muni fjölga verðmætum störfum í tækni- og hugverkagreinum, draga að erlent rannsóknafjármagn og stuðla um leið að verndun lífríkisins í hafinu í kringum landið.

Nánar um Arctic Circle