Landsbankinn hefur á sinni stefnuskrá að vera eftirsóttur vinnustaður þar sem metnaður, frumkvæði og hæfileikar starfsfólks fá notið sín. Öflugir og sterkir stjórnendur gegna lykilhlutverki í þessari framtíðarsýn, bæði sem virkir þátttakendur og fyrirmyndir.
Mannauðsstefnan endurspeglar áherslu bankans á gott starfsumhverfi þar sem starfsánægja og öflug þekkingarmiðlun er í hávegum höfð. Stefnan gefur einnig greinargóðar vísbendingar um hvernig fyrirtækjamenningu bankinn leitast við að byggja upp til að festa í sessi fyrirmyndar starfshætti sem starfsfólk getur sameinast um.
Í Landsbankanum er notast við frammistöðumatskerfi. Árlega á hver starfsmaður frammistöðusamtal við sinn yfirmann og fær skýra umsögn um vinnu sína, endurgjöf um það sem vel hefur gengið og það sem betur mætti fara. Þungamiðja samtalsins er markmiðasetning þar sem línurnar eru lagðar fyrir næsta misseri. Samkvæmt vinnustaðagreiningu eru starfsmenn ánægðir með samtölin og telja þau skila árangri.
Karl | Kona | Samtals | |
---|---|---|---|
Höfuðborgarsvæðið | 36% | 46% | 82% |
Landsbyggðin | 3% | 14% | 18% |
Samtals | 39% | 61% | 100% |
Karl | Kona | Samtals | |
---|---|---|---|
Undir 30 ára | 5% | 6% | 11% |
30-50 ára | 25% | 32% | 57% |
Yfir 50 ára | 9% | 23% | 31% |
Samtals | 39% | 61% | 100% |
Landsbankinn framkvæmir ítarlega vinnustaðagreiningu á fyrsta fjórðungi hvers árs og aðra viðaminni um haustið. Sú síðarnefnda kallast Bankapúlsinn og er ætlað að fylgja eftir þeim umbótamarkmiðum sem sett eru í kjölfar vinnustaðagreiningarinnar.
Saman gefa þessar kannanir mikilvægar vísbendingar um viðhorf starfsmanna til vinnustaðar síns og starfsánægju þeirra.
Niðurstöður vinnustaðagreiningar og Bankapúls hafa jafnan sýnt að starfsfólk er ánægt með Landsbankann sem vinnustað, aðbúnaður er góður og liðsheildin sterk. Samhliða vinnustaðagreiningunni er framkvæmt stjórnendamat og hafa niðurstöður þess jafnan verið Landsbankanum til sóma.
* Á heildina litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu hjá Landsbankanum.
Landsbankinn hefur unnið markvisst að jafnréttismálum í gegnum tíðina og hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC. Bankinn leggur áherslu á að tryggja jafnrétti í launum og starfstækifærum og er gullmerki PwC mikilvæg staðfesting á stöðu jafnréttismála í bankanum og er jafnframt hvatning til að viðhalda þeirri stöðu til framtíðar.
Endurnýjuð áætlun Landsbankans gegn einelti og kynferðislegri áreitni var samþykkt í ársbyrjun 2014. Rík áhersla er lögð á opinskáa umræðu um eineltis- og áreitnismál og skýr viðbragðsáætlun er lögð til grundvallar meðhöndlunar á slíkum málum.
Hjá Landsbankanum starfar hæft og reynslumikið starfsfólk og fjöldi þess hefur unnið lengi hjá bankanum. Langflesta starfsmenn er að finna á höfuðborgarsvæðinu.
Hjá Landsbankanum er litið á hæfni og fagþekkingu starfsfólks sem nauðsynlega forsendu árangurs. Markviss fræðslustefna, fjölbreytt námskeið og hvatning til símenntunar sýna að Landsbankinn er til fyrirmyndar í fræðslustarfi fyrir starfsmenn.
Árið 2014 var bankinn eitt fjögurra fyrirtækja sem tilnefnd voru til Menntaverðlauna atvinnulífisins. Á árinu hlaut fræðslustarf bankans jafnframt gæðavottun skv. viðmiðum European Quality Mark (EQM) sem veitt er af Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
40 leiðbeinendur, verktakar og ráðgjafar og 76 starfsmenn komu að kennslu á árinu.
Fræðslustarf í tölum | |
---|---|
87% | Hjá Landsbankanum telja 87% starfsfólks sig fá þá fræðslu og þjálfun sem þeim er nauðsynleg til að standa sig vel í starfi.* |
80% | Hjá Landsbankanum eru 80% starfsfólks ánægð eða mjög ánægð með fræðslu og þjálfun innan bankans.* |
98% | Hjá Landsbankanum eru 98% starfsfólks ánægð með þjónustu fræðsluteymis** |
225 | Árið 2014 voru 225 fræðsluviðburðir á dagskrá hjá Landsbankanum. |
264 | Árið 2014 nýttu 264 starfsmenn árlegan styrk til að sækja námskeið. |
97 | 97 starfsmenn fengu styrk til að stunda nám samhliða starfi á árinu. |
4 | Hver starfsmaður Landsbankans sótti að meðaltali fjóra fræðsluviðburði árið 2014. |
* Samkvæmt vinnustaðagreiningu Capacent Gallup 2014
** Samkvæmt innri þjónustukönnun Landsbankans 2014