Stefna og lykilmarkmið


Landsbankinn hefur á undanförnum árum markvisst fylgt þeirri stefnu sem mörkuð var árið 2010. Stefnan sem þá var mótuð náði til ársins 2015 og tók mið af þeim verkefnum sem við blöstu á þeim tíma. Staða hagkerfisins, bankans og viðskiptavina hans kallaði á mikið og metnaðarfullt starf.

Fara neðar

Landsbankinn þinn 2010–2015

Framtíðarsýn Landsbankans er að vera til fyrirmyndar og hlutverk hans er að vera traustur samherji viðskiptavina og hreyfiafl í samfélaginu. Stefna Landsbankans ber yfirheitið Landsbankinn þinn“ og hvílir á fjórum meginstoðum:

Ávinningur samfélags og eigenda vísar til þess að hluthafar hafi fjárhagslegan hag af eign sinni í bankanum og samfélagið allt njóti ávinnings af velgengni hans og styrk.

Ánægðir viðskiptavinir vísar til gagnkvæms ávinnings af langtímasambandi við viðskiptavini og fjárhagslegrar endurskipulagningar þeirra.

Traustir innviðir vísar til vandaðra stjórnarhátta, áherslu á gæði eigna með virkri áhættustjórnun, fjárhagslegs styrks og aga í rekstri.

Öflug liðsheild vísar til mannauðs og hugarfars, að bankinn hafi á að skipa öflugum, metnaðarfullum og samheldnum hópi starfsfólks.

Stoðir stefnunnar
Þróun eignarhlutar ríkisins
Upphafleg fjárfesting -122.000
Verðmæti eignarhlutar nú* 248.822
Virðisbreyting 126.822
   
Greiddir vextir -48.847
Móttekinn arður 29.375
Núvirðing vaxta- og arðgreiðslna -8.717
Hreinn fjármagnskostnaður -28.189
   
Hrein afkoma ríkisins 98.633

* Miðað við bókfært virði eiginfjár Landsbankans hf.
Allar tölur í milljónum króna


Afkoma ríkisins af eignarhlut í Landsbankanum

Ríkið lagði Landsbankanum til 122 milljarða króna við stofnun bankans haustið 2008. Þá eignaðist ríkið 81,33% hlut í bankanum en breyting varð á eignarhaldi Landsbankans frá og með 11. apríl 2013 þegar 18,67% hlutur sem var í eigu Landskila fyrir hönd slitastjórnar LBI hf. rann til íslenska ríkisins og Landsbankans hf. í samræmi við samkomulag þessara aðila frá desember 2009.

Við sama tækifæri gaf Landsbankinn hf. út skuldabréf til LBI hf. að andvirði 92 milljarðar króna í erlendri mynt. Bréfið var hluti af kaupverði þeirra eigna sem Landsbankinn keypti af LBI hf. Íslenska ríkið eignaðist því stóran hlut í bankanum án þess að greiðsla kæmi fyrir og á nú 97,9% hlut í bankanum. Hlutdeild ríkisins í bókfærðu eigin fé bankans hefur aukist um 126,8 milljarða króna frá stofnun hans og ávinningur ríkisins er því 98,6 milljarðar króna þegar tekið hefur verið tillit til fjármagnskostnaðar rikisins og arðgreiðslna bankans.

Landsbankinn fylgir stefnu sinni eftir með skýrri markmiðasetningu þar sem sett eru fram metnaðarfull og mælanleg lykilmarkmið sem tengjast stoðunum fjórum sem stefnan byggir á.

Þessi markmið eru endurskoðuð árlega sem og þær áherslur og þau verkefni sem miða að innleiðingu stefnunnar. Að mati bankans hefur innleiðingin gengið vel þó ekki hafi tekist að ná öllum fimm lykilmarkmiðum ársins.

Markmið um góða arðsemi styrkir stoðina um ávinning samfélags og eigenda. Markmið bankans var að arðsemi eiginfjár eftir skatta væri á bilinu 10 til 15%. Á árinu 2014 var arðsemi eiginfjár 12,5% sem verður að teljast gott í ljósi þess hversu mikið eigið fé Landsbankans er. Eiginfjárhlutfall bankans (CAR) mælist nú 29,5% sem er langt umfram þær kröfur sem eftirlitsaðilar gera og eitt það hæsta sem þekkist í veröldinni, þrátt fyrir að bankinn hafi á árinu 2014 greitt um 20 milljarða króna í arð til eigenda sinna.

Til að fylgjast með ánægju viðskiptavina sinna styðst bankinn við viðhorfskönnun sem framkvæmd er af ytri aðila. Könnunin tekur til ellefu atriða á fimm punkta kvarða sem sett eru saman í eina vísitölu, svokallaða CE11 vísitölu.

Arðsemi eiginfjár 2014

12,5%

Ánægja viðskiptavina hefur vaxið á undanförunum árum en markmið ársins var að ná einkunninni 3,8. Undir lok ársins var bankinn rétt undir því markmiði.

Starfsánægja*

4,30

* Skv. vinnustaðagreiningu í febrúar 2015

Til að fylgja eftir stefnu um trausta innviði setti bankinn sér tvö lykilmarkmið. Annars vegar um hagkvæman rekstur þar sem markmið ársins var að hlutfall kostnaðar af tekjum án virðisbreytinga útlána væri undir 48%. Vegna töluverðrar lækkunar á vaxtamun náðist það markmið ekki og tókst bankanum því ekki að fylgja eftir góðum árangri ársins 2013. Hitt markmiðið gekk út á gæði eigna með tilliti til útlánataps og markaðsáhættu. Það markmið náðist á árinu með samstilltu átaki starfsmanna.

Til að fylgjast með stoðinni öflugri liðsheild mælir Landsbankinn reglulega viðhorf starfsfólks til bankans með aðstoð ytri aðila. Mikil áhersla er lögð á þjálfun og fræðslu til starfsmanna, sem og árlegt frammistöðumat sem skilað hefur góðum árangri. Starfsánægja innan bankans mældist 4,30 á árinu en markmið bankans er að starfsánægja mælist á styrkleikabili, 4,20 eða hærri.

Stefnumótun til 2020

Frá þeim tíma sem Landsbankinn setti sér þá stefnu sem að framan er lýst hafa margar breytingar orðið. Staða bankans og viðskiptavina hans hefur breyst auk þess sem verkefni og áskoranir eru ekki þær sömu. Því var talið tímabært að móta stefnu og áherslur að nýju og er þeirri stefnumótun nú lokið með aðstoð alþjóðlegs ráðgjafafyrirtækis.

Ný stefna er eðlilegt framhald þeirrar sem fyrir var, en um leið felur hún í sér miklar breytingar og ögrandi viðfangsefni fyrir starfsfólk. Viðskiptavinir Landsbankans eiga að finna að með bankanum nái þeir árangri og að þeir njóti gagnkvæms ávinnings.

Landsbankinn ætlar að bjóða alhliða fjármálaþjónustu sem mætir þörfum viðskiptavina sinna. Hann ætlar að vera hreyfiafl og starfa í sátt við samfélagið og umhverfið. Eins og áður hefur Landsbankinn þá framtíðarsýn að vera til fyrirmyndar og hlutverkið er að vera traustur samherji í fjármálum. Bankinn vill að viðskiptavinir hans geti sagt: „Svona á banki að vera!“

Í nýrri stefnu er lögð áhersla á að veita viðskiptavinum fyrirmyndarþjónustu, þróa rafræna þjónustu með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi, auka skilvirkni stoðeininga, móta nútímalegra tækniumhverfi og tryggja hagkvæmni í efnahagsreikningi. Þá verður sérstök áhersla lögð á árangursmiðaða menningu innan bankans.

Ný stefna verður kynnt á aðalfundi fyrir árið 2014 og verða nánari upplýsingar gerðar aðgengilegar á vef bankans.