Ábyrg markaðssókn


Landsbankinn leggur áherslu á að vera samherji viðskiptavina í fjármálum. Hann stundar ábyrga markaðssókn með það að markmiði að skapa gagnkvæman ávinning og styrkja langtímasamband sitt við viðskiptavini. Lykilþáttur í slíku sambandi er gott vöruframboð og góð þjónusta. Markaðsaðgerðir bankans á árinu einkenndust af þessu markmiði.

Fara neðar

Markaðshlutdeild Landsbankans heldur áfram að aukast og er mjög sterk. Samkvæmt ytri könnun mælist markaðshlutdeild bankans á einstaklingssviði 34% í árslok 2014 og hafði þá hækkað um 2 prósentustig frá fyrra ári og um 6 prósentustig frá árinu 2010. Marktækur munur mælist á hlutdeild Landsbankans og annarra banka. Á sama hátt mælist markaðshlutdeild bankans á fyrirtækjamarkaði um 31%.

Innlán

Veigamesta fjármögnun Landsbankans felst í innlánum frá viðskiptavinum og námu þau 551,4 milljörðum króna í lok árs 2014 og er stærstur hluti þeirra óverðtryggður og óbundinn. Verðtryggð innlán námu 97 milljörðum króna í árslok 2014 og lækka um fimm milljarða milli ára. Bankinn er með 36% markaðshlutdeild í innlánum einstaklinga og 26% í innlánum fyrirtækja og lögaðila.

Útlán

Útlán jukust um 5,5% á árinu og voru í árslok 718 milljarðar króna. Aukningin stafar fyrst og fremst af mikilli eftirspurn eftir íbúðalánum. Ný útlán til viðskiptavina árið 2014 eru 162 milljarðar króna, en að teknu tilliti til afborgana, virðisbreytinga og fleiri þátta hækka heildarútlán um 38 milljarða á árinu. Landsbankinn er með 29% markaðshlutdeild í útlánum til einstaklinga og 41% markaðshlutdeild í útlánum til fyrirtækja.

Útlán til einstaklinga

Útlánum til einstaklinga er skipt í þrjá meginflokka: íbúðalán, neyslulán og fjárfestingalán. Lán sem ekki falla í þessa þrjá flokka teljast síðan til aukaflokksins önnur lán.

Bankinn er með 36% markaðshlutdeild í innlánum einstaklinga og 26% í innlánum fyrirtækja.
Skipting lánasafns um áramót
Útlánastarfsemi til einstaklinga á árinu 2014 gekk vel. Mestu munar um góðan gang í íbúðalánum Landsbankans, en þau telja nú 66% af útlánum til einstaklinga.
Ný íbúðalán

Markaðshlutdeild bankans í nýjum íbúðalánum til einstaklinga var tæplega 42% á árinu 2014, sem er umtalsvert meira en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Um 6% útlána til einstaklinga eru fjárfestingalán, einkum bílalán, um 11% neyslulán og um 17% annars konar lán. Á bílalánamarkaði var aukningin mest í nýjum útlánum til fyrirtækja en útlán til einstaklinga voru sambærileg við árið áður. Markaðshlutdeild Bíla- og tækjafjármögnunar Landsbankans var áætluð 43% í árslok 2014. 

Þá lauk leiðréttingu endurútreiknings gengistryggðra bílalána einstaklinga á árinu.

Útlán til fyrirtækja og sveitarfélaga

Landsbankinn er áfram leiðandi á flestum sviðum þegar kemur að útlánum til fyrirtækja, t.d. í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og orkufrekum iðnaði.

Landsbankinn hefur efnt til samstarfs við fyrirtæki og hagsmunaaðila um ábyrga uppbyggingu í atvinnulífinu. Á árinu 2014 kom bankinn á fót viðamiklu verkefni í samvinnu við Samtök iðnaðarins um umbætur í fjármálaþjónustu fyrir ný tæknifyrirtæki.

Fyrirtækjamiðstöð Landsbankans í Borgartúni sinnir minni og meðalstórum fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Með því að sameina þjónustu við fyrirtæki undir einu þaki eflir bankinn þjónustu sína og er ennþá betur í stakk búinn til að styðja við bakið á íslenskum fyrirtækjum.

Sjávarútvegur hefur alla tíð skipað sérstakan sess hjá Landsbankanum og er samofinn sögu hans frá upphafi. Sjávarútvegurinn og atvinna tengd honum eru burðarstoðir í íslensku atvinnulífi, en jafnframt sú grein þar sem tækifæri til nýsköpunar, þróunar og framfara eru hvað mest.

Landsbankinn vill halda áfram að taka virkan þátt í þessari þróun í samræmi við þá stefnu bankans að vera hreyfiafl í samfélaginu og styðja við ný verkefni sem auka enn frekar veg sjávarútvegs og samfélagsins.

Landsbankinn er með um 40% markaðshlutdeild í útlánum til sjávarútvegs og fimmtungur af útlánasafni bankans er til sjávarútvegs.

Á síðasta ári kom bankinn að fjölda stórra fjárfestingarverkefna í sjávarútvegi, s.s. við fjármögnun á skipakaupum, kaup á félögum og veitingu ábyrgða vegna smíði á nýjum ísfisktogurum í Tyrklandi.

Ferðaþjónustan hefur eflst jafnt og þétt undanfarin ár og er orðin þriðja meginstoð íslensks útflutnings ásamt sjávarútvegi og stóriðju. Þessi þróun hefur falið í sér auknar fjárfestingar og uppbyggingu í greininni.

Landsbankinn hefur lagt mikla áherslu á að taka þátt í vexti ferðaþjónustunnar með öflugu samstarfi við mörg af helstu ferðaþjónustufyrirtækjum á landinu.

Bankinn hefur einnig tekið þátt í verkefninu Ísland allt árið með stofnun og starfrækslu þróunarsjóðs í samstarfi við atvinnuvegaráðuneytið.

Á árinu stóð Landsbankinn fyrir stefnumótunarvinnu í ferðaþjónustu ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) þar sem lögð var áhersla á langtímahugsun í greininni. Bankinn hélt fjölmenna ráðstefnu á árinu í Hörpu með yfirskriftinni „Er vöxtur í ferðaþjónustu sjálfsagður?“ og Hagfræðideild bankans gaf við það tilefni út greiningu á ferðaþjónustunni.

Landsbankinn fjármagnaði fjölmargar byggingar á hótelum á árinu 2014 og má sjá upplýsingar um lykilverkefni hér að neðan.

Hótelbyggingar fjármagnaðar af Landsbankanum árið 2015: Fjöldi herbergja
144 Hótel Icelandair á Hljómalindarreit við Smiðjustíg og Hverfisgötu
100 Hótel Keahótela við Hverfisgötu 103 í Reykjavík
90 Hótel við Þórunnartún í Reykjavík
80 Viðbygging við Lykilhótel Klett við Mjölnisholt
60 Viðbygging við Icelandair Hotel Marina við Mýrargötu
60 Icelandair hótel við Hafnarstræti í Reykjavík
36 Hótel í Húsafelli

Markaðir

Landsbankinn leggur áherslu á að taka öflugan þátt í þeirri uppbyggingu sem á sér stað á íslenskum verðbréfamarkaði. Landsbankinn var stærsti bankinn á skuldabréfamarkaði í Kauphöll á Íslandi á árinu með 23% hlutdeild. Þá var bankinn næst stærstur á hlutabréfamarkaði með 23,5% hlutdeild.

Markaðir önnuðust ýmis verkefni er tengjast skulda- og hlutabréfamörkuðum á árinu 2014. Þar má nefna umsjón með sölu á 5,54% hlut Stoða í TM, 7% hlut Framtakssjóðs Íslands í Icelandair og 20,9% hlut í N1. Markaðir höfðu umsjón með endurkaupaáætlun Fjarskipta og með skráningu á nýjum skuldabréfaflokki Greiðslumiðlunar Hrings ehf. í Kauphöll. Þá skrifaði bankinn undir samning um viðskiptavakt með hlutabréf Eimskips og Sjóvá á árinu.

Umfang eignastýringarstarfsemi jókst á árinu, líkt og undanfarin ár. Heildareignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans námu um 280 milljörðum króna í árslok, og þjónustutekjur jukust um 12% frá fyrra ári. Landsbankinn er helsti söluaðili verðbréfa- og fjárfestingarsjóða Landsbréfa og var veruleg aukning í nýsölu sjóðanna á árinu. Góður gangur var í sölu á viðbótarlífeyrissparnaði, en alls voru gerðir um 7.000 samningar á árinu. Þá var stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar innleidd í verklag eignastýringar.

Góður gangur var í sölu á viðbótarlífeyrissparnaði hjá Landsbankanum. Samtals voru gerðir tæplega 7.000 samningar á árinu 2014.