Fjármögnun


Fjármögnun Landsbankans byggir á fjórum meginstoðum: innlánum frá viðskiptavinum, skuldum við fjármálafyrirtæki, lántökum og eigin fé. Landsbankinn hefur aflað sér lánshæfiseinkunnar frá alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu Standard & Poor's. Einkunnin BB+/B með jákvæðum horfum var staðfest í október 2014.

Fara neðar

Innlán frá viðskiptavinum

Veigamesta fjármögnun Landsbankans felst í innlánum frá viðskiptavinum.  Þau námu 551,4 milljörðum króna í lok árs 2014 og er stærstur hluti þeirra óverðtryggður og óbundinn. 

Innlán frá viðskiptavinum jukust um 21% á árinu en hluti þessarar aukningar er vegna þess að innlán frá fjármálafyrirtækjum í slitameðferð teljast til almennra innlána frá þeim tíma er Fjármálaeftirlitið afturkallar starfsleyfi þeirra að fullu. 

Verðtryggð innlán námu 97 milljörðum króna í árslok 2014 og lækka þau um fimm milljarða milli ára.

Skuldir við fjármálafyrirtæki

Skuldir við fjármálafyrirtæki námu um 54 milljörðum króna í árslok 2014 og lækka umtalsvert milli ára, en skuldir við fjármálafyrirtæki námu um 167 milljörðum króna í árslok 2013. 

Lækkunin er fyrst og fremst tilkomin vegna þess að innlán frá fjármálafyrirtækjum í slitameðferð sem misst hafa starfsleyfi að fullu, teljast nú til almennra innlána.

Stoðir fjármögnunar (m. kr.)

Lántaka Landsbankans felst að stærstum hluta í skuldabréfaútgáfu til LBI hf. en um hana var samið við tilfærslu eigna og skulda frá LBI til Landsbankans árið 2009. Auk útgefinna skuldabréfa til LBI hefur Landsbankinn sett upp útgáfuramma fyrir sértryggð skuldabréf.

Afborganir til LBI fyrir og eftir breytingar á skilmálum uppgjörsskuldabréfa (ma. kr.)

Útgáfurammi fyrir sértryggð skuldabréf

Landsbankinn hefur sett upp 100 milljarða króna útgáfuramma fyrir sértryggð skuldabréf. Gefin hafa verið út óverðtryggð skuldabréf með föstum vöxtum til þriggja og fimm ára.
Nánar um sértryggð skuldabréf

Standard & Poor's

Flokkur Samtals
Langtíma BB+
Skammtíma B
Horfur Jákvæðar
Útgáfudagur 14.10.2014
   

Skuldabréfaútgáfa til LBI hf.

Skuldabréfaútgáfan til LBI hf. er í evrum, sterlingspundum og Bandaríkjadölum. Lokagjalddagi skuldabréfanna var upprunalega 2018 en á árinu 2014 náðist samkomulag milli Landsbankans og slitastjórnar LBI hf. um breytingar á skuldabréfunum. 

Samkomulagið fól í sér að lokagreiðsla Landsbankans til LBI hf. verður í október 2026 í stað október 2018. Eftirstöðvar skuldarinnar greiðast með tíu skuldabréfum sem koma til greiðslu á tveggja ára fresti, útgefnum í evrum, sterlingspundum og Bandaríkjadölum.

Sértryggð skuldabréf

Landsbankinn hefur sett upp 100 milljarða króna útgáfuramma fyrir sértryggð skuldabréf og er útgáfa þeirra fyrst og fremst hugsuð sem fjármögnun fyrir íbúðalán bankans og til að draga úr fastvaxtaáhættu. 

Landsbankinn hefur gefið út óverðtryggð skuldabréf með föstum vöxtum til þriggja og fimm ára og hyggur á frekari útgáfu sértryggðra skuldabréfa á næstu misserum.

Á árinu 2013 vann bankinn að því að afla sér lánshæfismats frá alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtæki og í janúar 2014 veitti Standard & Poor's (S&P's) Landsbankanum lánshæfiseinkunnina BB+ með stöðugum horfum.

Í október breytti S&P's svo horfum lánshæfiseinkunnar bankans úr stöðugum í jákvæðar og staðfesti BB+/B lang- og skammtímaeinkunn bankans.

Hlutafé

Fjórða stoð fjármögnunar Landsbankans er hlutafé, en eigið fé bankans nam 250,8 milljörðum króna í lok desember 2014. Landsbankinn greiddi 20 milljarða króna í arð til eigenda sinna á árinu 2014. 

Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2014 var 29,5%.

Eiginfjárhlutfall

29,5%