Áhættustjórnun


Árangursrík áhættustjórnun er lykilþáttur í langtímaarðsemi og stöðugleika Landsbankans. Í áhættustjórnun felst greining, mat og stýring á áhættuþáttum í rekstri og að skilvirkt skipulag til að mæta áhættu og/eða miðla upplýsingum um hana sé til staðar. Bankinn nýtir bestu viðmið við áhættustjórnun.

Fara neðar

Umgjörð áhættustjórnunar

Skýr og skilvirk heimild einstakra aðila til ákvarðanatöku, stýrð áhættutaka og eftirlit bankaráðs, bankastjóra og einstakra nefnda bankans eru hornsteinar áhættustjórnunar. Landsbankinn hefur sett sér ítarlegar áhættureglur og byggt upp stjórnskipulag sem tryggir skýra ábyrgð og eftirfylgni við áhættustjórnun.

Á árinu 2014 var áfram unnið að eflingu áhættustjórnunar Landsbankans með umbótum á innri ferlum og með greiningu og miðlun helstu áhættuþátta í rekstri bankans.

Mæling áhættuvilja og áhættumarka stærstu áhættuþátta er hluti af daglegri stjórnun bankans. Þessi aðferð hefur nýst vel til að auka gæði eignasafns, bæta samsetningu þess og draga úr áhættu. Áhættuvilji tekur ekki einungis til áhættumarka, heldur felur jafnframt í sér leiðbeiningar um það viðhorf til áhættu í rekstri sem starfsmenn þurfa að tileinka sér.

Áhættumörk bankans eru ávallt í samræmi við lög eða reglur, ef þeim er til að dreifa, en bankinn skilgreinir einnig sjálfur fjölmörg áhættumörk sem ekki eru bundin í lög eða reglugerðir. Landsbankinn hefur sett sér markmið um fjárhagsstöðu, gæði eigna, stöðutöku og ásættanlega arðsemi til lengri tíma. Til að ná markmiðum sínum tekur bankinn aðeins þá áhættu sem hann skilur getur metið og mætt.

Við ákvörðun áhættuvilja eru samhliða sett áhættumörk fyrir helstu þætti tengda útlána-, markaðs-, lausafjár-, fjármögnunar- og rekstraráhættu, en þau eru misítarleg eftir eiginleikum og breytileika þeirra. Áfram er stefnt að því að draga úr áhættuþáttum í rekstri.

Áhættustýring

Til að ná markmiðum sínum tekur bankinn aðeins þá áhættu sem hann skilur, getur metið og mætt.

Lesa áhættuskýrslu Landsbankans

Yfirlit mælinga áhættuvilja Landsbankans

Áhættuþáttur Mæling
Útlánaáhætta
Meðallíkur á vanefndum
90 daga vanskilahlutfall
Geirasamþjöppun
Lántakasamþjöppun
Markaðsáhætta
Hlutabréf 
Skuldabréf
Gjaldeyrir
Vaxtaáhætta utan veltubókar
Verðtryggingaráhætta
Lausafjáráhætta Lausafjárþekja - alls
Lausafjárþekja - gjaldeyrir
Fjármögnunaráhætta Fjármögnunarþekja 
Eiginfjárhlutfall

Áhættuþættir eru metnir með mismunandi mælistikum eftir eðli þeirra. Þær mælistikur eru m.a. nýttar við setningu áhættumarka, greiningu áhættuþátta og breytingar á þeim, miðlun upplýsinga og stjórnun áhættu. Sameiginleg mæling allra áhættuþátta er mat á eiginfjárþörf (e. economic capital).

Áhættuvegnar eignir 2014

846ma. kr.

Eiginfjárkröfur og eiginfjárþörf

Árið 2013 óskaði Landsbankinn formlega eftir leyfi Fjármálaeftirlitsins (FME) til að nota svokallaða innramatsaðferð (IRB) við mat á eiginfjárkröfu vegna útlánaáhættu bankans. Landsbankinn hefur á undanförnum árum lagt mikla áherslu á að styrkja áhættustjórnun sína með margvíslegum umbótum á verklagi og aðferðafræði við áhættumat í samræmi við ofangreinda aðferð. Umsóknarferlið er umfangsmikið og stendur enn yfir í fullu samstarfi við Fjármálaeftirlitið.

Mat á eiginfjárþörf gerir bankanum kleift að varpa skýru ljósi á hversu mikið eigið fé bankinn þarf til eðlilegs rekstrar. Markmið bankans er að mæla eiginfjárþörf þannig að ætíð sé fyrir hendi nægt eigið fé til að standast lögbundnar kröfur þrátt fyrir óvænt tap. Þessi skilgreining miðast við 99,9% öryggismörk og eins árs tímabil sem þýðir að 0,1% líkur teljast á því að tap á eins árs tímabili verði meira en útreiknuð eiginfjárþörf. Þetta samræmist Basel-regluverkinu og uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til aðila með lánshæfiseinkunn A.

Eiginfjárþörf Landsbankans lækkaði á árinu 2014 sem sýnir að dregið hefur úr áhættu miðað við síðasta ár.

Nánar um áhættustjórnun

Landsbankinn hefur undanfarin ár gefið út áhættuskýrslu sem uppfyllir upplýsingaskyldu bankans samkvæmt þriðju stoð Basel II. Í skýrslunni er gerð ítarleg grein fyrir öllum þáttum áhættustýringar bankans og þeim aðferðum sem beitt er við mat á áhættu. 

Áhættuskýrslunni er ætlað að gefa glögga mynd af stöðu bankans og veitir hún m.a. lykilupplýsingar varðandi umfang, áhættuskuldbindingar, áhættumatsferli, eiginfjárstöðu og aðra mikilvæga þætti á þessu sviði.

Áhættuskýrsla Landsbankans

Nánari upplýsingar um áhættustjórnun Landsbankans er að finna í áhættuskýrslu sem birt er samhliða ársreikningi.

Lesa áhættuskýrslu Landsbankans